Upphaf og saga

Dvalarheimili aldraðra sf í Þingeyjarsýslum var formlega stofnað á Húsavík 8. janúar 1976. Stofnendur voru Húsavíkurbær ásamt 12 sveitarfélögum frá Ljósavatnshreppi að vestan til Raufarhafnarhrepps að austan. Fyrsta verkefni félagsins var bygging dvalarheimilis á Húsavík og var hafist handa 20. ágúst 1976. Fyrstu íbúar fluttu svo í Hvamm 2. maí 1981.

Á vegum félagsins, Dvalarheimili aldraðra sf, er annars vegar er rekin byggingadeild sem rekin er fyrir fé frá aðildarsveitarfélögum í sýslunum tveimur og fer framlag hvers sveitarfélags eftir íbúafjölda. Félagið kaupir og selur einstaklingum eða hjónum svokallaðar búseturéttaríbúðir í Litlahvammi, Miðhvammi og Brekkuhvammi. Hins vegar rekur félagið Hvamm, heimili aldraðra en þar búa að staðaldri 38 einstaklingar 29 í hjúkrunarrýmum og 9 í dvalarrýmum en auk þess eru tvö hvíldarinnlagnarrými.

Á Raufarhöfn eru leigðar út íbúðir til aldraðra.

Í upphafi (1981) var hugsunin á bak við Hvamm, heimili aldraðra að þar myndu búa sjálfbjarga einstaklingar. Með öflugri heimahjúkrun, félagsþjónustu og dagþjónustuúrræðum breyttist þörfin og í dag þurfa langflestir íbúar Hvamms flókna hjúkrun og umönnun.

Rekstur Hvamms, heimili aldraðra byggist á daggjöldum frá ríkinu. Þegar fólk flyst í Hvamm falla lífeyrisgreiðslur og tekjutrygging frá ríkinu niður til viðkomandi en fólk getur átt rétt á ráðstöfunarfé sem er tekjutengt frá Tryggingarstofnun ríkisins.

Dagþjónustuúrræði (23 rými) hafa verið rekin á vegum Dvalarheimilis aldraðra sf frá árinu 1984. Fyrst í Hvammi/ Hornið en svo einnig á Kópaskeri frá 1990 og frá 1991 á Raufarhöfn. Helsta markmið dagþjónustu er að draga úr félagslegri einangrun fólks.

Dagþjónustan er rekin með daggjöldum frá ríkinu.