Hvammur heimili aldraðra
Vallholtsvegi 15, 640 Húsavík
Sími 464 0700, Fax 464 0701
hvammur@hvammurhus.is
kt. 700481-0189

Hvammur, heimili aldraðra

 

Hvammur, heimili aldraðra var opnað þann 1. maí 1981 og fyrstu íbúarnir fluttu inn á heimilið daginn eftir. Í upphafi var hugsunin á bak við dvalarheimilið sú, að þar áttu að búa einstaklingar sem væru sjálfbjarga, en í dag er því þannig farið að fólk býr lengur heima með aðstoð frá félagsþjónustunni í formi heimilisaðstoðar og með aðstoð frá heilsugæslunni sem veitt er í formi eftirlits, m.a. lyfjatiltektar og aðstoðar við athafnir daglegs lífs (böðun og klæðnað).  Þess vegna er það fólk sem býr í Hvammi í dag eðli málsins samkvæmt orðið mun eldra og veikara en það fólk sem flutti inn árið 1981.      

 

Hvammur er rekinn á svokölluðum daggjöldum frá ríkinu.  Þegar fólk flyst í Hvamm fellur niður ellilífeyrir og tekjutrygging til viðkomandi, og Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiðir svokallað vistunarframlag sem er í formi áðurnefndra daggjalda.  Einstaklingar geta átt rétt á vasapeningum frá TR, en þeir eru tekjutengdir. Heimilið starfar eftir lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999.

Smellið hér: LÖG UM MÁLEFNI ALDRAÐRA

 

Í Hvammi búa 38 einstaklingar, 29 í hjúkrunarrýmum og 9 í dvalarrýmum. Auk þess eru á heimilinu 2 rými sem nýtt eru til skammtímainnlagna.

 

Íbúar geta gert ýmislegt sér til ánægju og yndisauka. Tómstundafulltrúi er starfandi á heimilinu og sér hann, ásamt öðru starfsfólki heimilisins m.a. um upplestur, bingó, boccia, myndasýningar, hópferðir á sýningar, bílferðir, bæjarferðir, skemmtanir innanhúss o.fl., o.fl.

 

Handavinnusalur er í Hvammi þar er í boði nánast hvað sem er, og þar hefur margt handverkið orðið til í gegnum tíðina.

 

Undanfari búsetu í Hvammi er svokallað færni- og heilsufarsmat það er á höndum starfsfólks heilsugæslunnar að framkvæma það þegar viðkomandi hefur skrifað undir ósk þar um. Það er misjafnt hversu langan tíma tekur að öðlast búsetu eftir að einstaklingur er kominn á biðlista og fer það eftir fjölda rýma sem losna og þörf einstaklinga sem er metin út frá færni- og heilsufarsmati og þeim fjölda stiga sem einstaklingar fá þar. .

 

Í Hvammi er starfandi dagvistun/dagþjálfun; HORNIÐ. Alls eru 23 dagvistarrými sem Hvammur, Vík og Stóramörk skipta með sér. Hornið í Hvammi er opið alla virka daga frá kl. 8-16. Þangað get eldri borgarar í aðildarsveitarfélögunum, sem sótt hafa um og  fengið samþykkta dagþjálfun komið.

 

 

Hár og fótsnyrting er í boði fyrir íbúa Hvamms en sú þjónusta fellur ekki undir daggjöld.  Hárgreiðslustofan er opin á þriðjudögum og fimmtudögum. Fótsnyrting er í boði eftir samkomulagi.