Hvammur heimili aldraðra
Vallholtsvegi 15, 640 Húsavík
Sími 464 0700, Fax 464 0701
hvammur@hvammurhus.is
kt. 700481-0189

Stefna í tóbaksvörnum á Hvammi, heimili aldraðra á Húsavík

 

Hvammur fylgir stefnu heilbrigðisyfirvalda um tóbaksvarnir með það að markmiði að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Allir hafa rétt til að anda að sér reyklausu lofti og enginn á að þurfa að anda að sér lofti sem  mengað er tóbaksreyk af völdum annarra.  Með tóbaki er átt við varning unninn að öllu eða einhverju leyti úr tóbaksjurtum svo sem sígarettur, vindla, reyktóbak, neftóbak og munntóbak.

 

Hvammur leggur áherslu á tóbakslaust umhverfi bæði innan húss og við innganga heimilisins þannig að hver sem kemur til heimilisins, á því starfar eða er íbúi þess fái notið hreins og ómengaðs lofts og umhverfis.

 

Stefna Hvamms í tóbaksvörnum tekur mið af almannahagsmunum þar sem eldhætta og mengun er mikil í tengslum við reykingar íbúa. Framkvæmdastjórn, öryggisnefnd og starfsfólk Hvamms ber ábyrgð á að stefnu Hvamms í tóbaksvörnum sé fylgt.

 

Reglur um tóbaksnotkun á Hvammi:

 

1.     gr.

Ákvæði þessara reglna taka til takmarkana á tóbaksreykingum í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir. Markmið þeirra er að tryggja að þeir sem ekki reykja verði ekki fyrir skaða og óþægindum af völdum tóbaksreyks.

2.     gr.

Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar, nema í sérútbúnu reykherbergi á 3. hæð Hvamms.

Óheimilt er að reykja í herbergjum íbúa, á svölum og í eða við anddyri heimilsins.

3.     gr.

Í reykherbergi skulu vera læstir skápar fyrir íbúa svo þeir geti geymt tóbak sitt og eldfæri þar.

4.     gr.

Þeir sem brjóta þessar reglur þurfa að afhenda vakthafandi hjúkrunarfræðingi Hvamms tóbak sitt og eldfæri og fá skammtað tóbak eftir þörfum viðkomandi íbúa.

Telji íbúi eða starfsmaður Hvamms að ákvæði þessara reglna séu brotin  eða gengið á rétt viðkomandi getur hann beint kvörtunum til heilbrigðisnefndar í samræmi við lög sem gilda um heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.

5.     gr.

Reglur þessar öðlast gildi 20. júní 2013.

 

 

Húsavík, 20. júní 2013

 

 

 

Viðauki 1.

REGLUGERÐ

um takmarkanir á tóbaksreykingum nr. 326/2007

 

3. gr.

Tóbaksreykingar eru bannaðar á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Nær bannið til allra húsa­kynna þeirra og skal ekki reykt á svölum og ekki í eða við anddyri. Það á þó ekki við íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Skylt er að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum íbúðarherbergjum.

Tóbaksreykingar eru bannaðar á sjúkrahúsum…. en heimilt er að leyfa sjúklingum að reykja í vissum tilvikum í sérstöku reykingaafdrepi. Séu reykingaafdrep fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum er starfsfólki óheimilt að reykja þar.

 

9. gr.

Loftræsting.

Þar sem tóbaksreykingar eru leyfðar samkvæmt reglugerð þessari skal vera fullnægjandi loftræsting að mati eftirlitsaðila þannig að komið sé í veg fyrir að tóbaksreykur berist til reyklausra svæða. Einnig skal þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í vistarverur fólks í nærliggjandi húsnæði vegna fyrirkomulags loftræstingar, sbr. byggingarreglugerð og heil­brigðis­reglugerð.

 

10. gr.

Telji viðskiptavinur eða skjólstæðingur stofnunar eða fyrirtækis að ákvæði reglugerðar þessarar séu brotin getur viðkomandi beint kvörtun til heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði í samræmi við þau lög sem gilda um heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.

Um brot á ákvæðum reglugerðar þessarar fer skv. lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, og, eftir því sem við á, ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

 

 

Viðauki 2.

 

2002 nr. 6 31. janúar

Lög um tóbaksvarnir

 

III. kafli. Takmörkun á tóbaksreykingum.

 

 9. gr.

Þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt grein þessari skal séð fyrir loftræstingu sem fullnægir kröfum heilbrigðiseftirlits og þess gætt að reykingarnar mengi ekki andrúmsloftið þar sem þær eru ekki leyfðar.

 

10. gr. Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar:

4. Á heilsugæslustöðvum, á læknastofum og öðrum stöðum þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta. Það á þó ekki við íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum en þar er þó skylt að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum íbúðarherbergjum.

 

12. gr. Með þeirri undantekningu sem leiða kann af 3. mgr. 9. gr. skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi hans sjá til þess að hann njóti þess réttar.

 

20. gr. Það varðar mann sektum haldi hann áfram að reykja í húsakynnum eða farartæki þar sem bannað er að reykja skv. 9., 10. og 13. gr., sbr. einnig 11. gr., enda hafi umráðamaður húsakynna eða stjórnandi farartækis eða fulltrúi þeirra veitt honum áminningu. _ Sömu aðilar geta vísað hinum brotlega úr farartækinu eða húsakynnum láti hann ekki segjast.