Hvammur heimili aldraðra
Vallholtsvegi 15, 640 Húsavík
Sími 464 0700, Fax 464 0701
hvammur@hvammurhus.is
kt. 700481-0189
30. október 2015 18:35

Gjafir til Hvamms frá Minningar- og gjafasjóði

Í október sl. boðaði stjórn Minningar- og gjafasjóðs Hvamms til samverustundar með íbúum og kynnti starf og gjafir sjóðsins á yfirstandandi ári. Úr varð notaleg stund þar sem Friðrika Baldvinsdóttir gerði grein fyrir gjöfum sem voru: baðsegl, hitamælir fyrir eyra. Sjúkralyftubaðker sem keypt var fyrir fé sem Adam Jónsson ánafnaði Gjafasjóðnum. Fyrir hans gjöf var einnig keypt til dagþjálfunarþjónustu saumavél með fylgihlutum, litabækur fyrir fullorðna, drykkjarkönnur, mynddiskar með efni úr fórum Attenboroughs. Þá var fjárfest í sjónvarpi og fjölnota spjaldtölvu fyrir minningargjöf sem börn Odd Hjalmar Folkedal gáfu Hvammi og á að nýtast í dagþjálfunarstarfi sérstaklega með fólki með fötlun og minnissjúkdóma. Friðrika gat einnig um velvilja Bergþóru heitinnar Bjarnadóttur en þegar hún hélt upp á níræðis afmælið sitt þá mælti hún fyrir um að gjafir til sín yrðu í formi peninga sem rynnu til Minningar- og gjafasjóðs Hvamms.

Minningar- og gjafasjóður Hvamms selur minningarkort á vaktinni í Hvammi, Bókaverslun Þórarins, Blómabrekkunni, Apótekinu, Töff fötum, útibúum Sparisjóðsins í Mývatnssveit og Laugum einnig á Kópaskeri og hjá Ingimundi Jónssyni í Reykjavík. Stjórnarmenn sjóðsins liðsinna einnig fólki um kort en þau eru auk Friðriku Baldvinsdóttur, Emilía Harðardóttir, Sólveig Pétursdóttir, Kristján Halldórsson og Sigrún Ingvarsdóttir.

Nýverið lét sjóðurinn útbúa ný minningarkort sem prýða ljósmynd Hróbjarts Sigurðssonar frá Sandi og inni í því er vísa eftir Vigfús Jónsson á Laxamýri:

Þótt hverfi fólk af lífsins leið

og lengur telji ei árin.

Dæmin sanna um döpur skeið

að Drottinn græðir sárin.

Þenna fallega októberdag átti einn heimilismaður, Sjöfn Jóhannesdóttir frá Fjöllum í Kelduhverfi 91 árs afmæli og var afmælissöngurinn sunginn henni til heiðurs og svo var bætt um betur og sungið Vel er mætt til vinafundar...