Hvammur heimili aldraðra
Vallholtsvegi 15, 640 Húsavík
Sími 464 0700, Fax 464 0701
hvammur@hvammurhus.is
kt. 700481-0189
1. ágúst 2014 09:28

Sumarkveðja frá starfsfólki.

Sumarið á Hvammi hefur verið viðburðarríkt en öll dagskrá verið með svipuðu sniði og síðustu ár.
19. Júní kom hingað hópur tónlistarmanna sem söng fyrir heimilisfólkið en þeir voru að ferðast og syngja og spila á hjúkunarheimilum um allt land.

Sigurður Hallmarsson og Reynir Jónasson léku ljúfa harmónikutónlist dagpart og Jón Sigurjónsson hefur komið vikulega með sína harmóniku Hafliði Jósteinsson kom og var með okkur í sumarafleysingum nærvera hans hefur góð áhrif á íbúana og hann virðist geta blásið lífi í allar gamlar glæður þannig að allir sem einn taka þátt í félagslífinu. Einnig kom hópur af ungum stúlkum í sumarafleysingar sem lífgar sannarlega upp á heimilið og þær hafa staðið sig einstaklega vel og náð að tileinka sér einkunnarorð Hvamms sem eru virðing, umhyggja, samvinna og jafnræði. Í góða veðrinu hefur útivera verið með mesta móti. Farnar hafa verið ófáar gönguferðirnar um nágrennið auk þess sem leikskólabörn hafa heimsótt okkur hér í Garðshorn oftar en einu sinni og sungið og skemmt sér með heimilisfólki Hvamms og Skógarbrekku. Starfsfólk grillaði fyrir alla íbúa í blíðskapar veðri í byrjun júlí og vakti það mikla lukku, einnig hefur kaffi og kökur oft verið á borðum úti í sólinni því það hefur varla verið hægt að vera innandyra. Um Mærudagana var garðurinn og húsið að innan sem og utan skreytt með appelsínugulu skrauti sem er hverfislitur Hvamms. Auk þess föndruðu stúlkurnar í handavinnunni fyrir konurnar heklað blóm í barminn og karlana prjónaða slaufu. Allt í appelsínugulum lit. Svo héldum við Mærudagana hátíðlega með sælgæti, sherrý og Mærubingói. Hér gengur allt sinn vanagang og styttist í að við kveðjum sumarið sem sínum farfuglum og sumarstúlkum, sólbaðsdögum og björtu morgnum. Í sumar kvöddum við góða vini, blessuð sé minning þeirra sem og buðum nýja velkomna í hópinn. Við tökum fagnandi á móti nýrri árstíð og bíðum og sjáum hvaða viðburðir eru handan við hornið.
Gullkorn dagsins í dag er: Á jörðinni er ekki til sú sorg sem himininn getur ekki sefað!


Kærar kveðjur.
Fh. Starfsfólks Hvamms, Rán Guðmundardóttir.